Rýni: Stundin Okkar

Í gærkvöldi fórum við nokkur úr bekknum á Kaffi Barinn hérna í götunni. Við fengum okkur rautt og bjór og ræddum saman á mjög alvarlegum og heimspekilegum nótum. Því við erum svo alvarleg.

Eitt af hálavarlegu og veraldarvæddu viðfangsefnum okkar vakti mig til hvað mestrar umhugsunar.


“Tjah að mínu mati er Stundin Okkar mikilvægur þáttur í lífeðlilegri þróun innra sjálfs hjá litla fólkinu, nei ég segi bara svona”


“Hahaha þetta er svo póstmódernískt!”

Rannsóknarspurningin er:
Hefur Stundin Okkar versnað með árunum eða hef ég vaxið upp úr þessu sjónvarpsefni?

Það var herrans árið 1994 sem að Gunni og Felix byrjuðu með Stundina Okkar. Það var um það leyti sem ég byrjaði að muna eftir mér, orðin fjögurra ára. Það voru ótrúlega góðar stundir sem ég átti með Gunna og Felix klukkan sex á sunnudagskvöldum. Í fyrsta sinn voru tveir karlmenn með Stundina Okkar og þeir slógu í gegn hjá krökkum og foreldrum líka skilst mér. Ég fékk Gunna og Felix spólurnar í jólagjöf og ég er nokkuð viss um að ég hafi hætt í fimleikum sex ára gömul vegna þess að fimleikaæfingar og Stundin Okkar skaraðist á. Ég valdi Gunna og Felix fram yfir glæsta framtíð mína í fimleikum. Svo mikill aðdáandi var ég.

Samkvæmt Wikipedia var þarna árið 1996-1997 Stundin Okkar í umsjá Guðfinnu Rúnarsdóttur. Þar voru persónur sem hétu Irma, Finnur, Stjörnukíkirinn, Lalli lygari, Lísa ljósakróna og fleiri furðufuglar. Ég hef líklega verið frávita af sorg og aðskilnaðarkvíða eftir að Gunni og Felix fóru af skjánum því ég man bara ekkert eftir þessu. Merkilegt.

Ásta og Keli voru á skjánum frá 1997-2002. Í heil fimm ár guð minn góður. Ég var sjö ára, byrjuð að æfa á blokkflautu og var líklega í fótbolta líka. Ég hafði ekkert á móti Ástu og Kela. Ásta var viðkunnaleg kona og almennileg og Keli var sniðugur kisi sem kunni að tala. Það sem stendur e.t.v. hæst uppúr er brandarahorn Kela. Á þessum tíma las ég brandara aftaná Andrés blöðum eins og mér væri borgað fyrir það og þetta brandarahorn var frábær viðbót. Ég sendi einu sinni brandara til Kela sem að enduðu svo í Stundinni Okkar. Mér brá svo mikið þegar Keli fór að lesa brandarana mína að ég fór að grenja. Ásta og Keli voru góð, en kannski var ég bara að verða of gömul. Þau voru allavega síðasta Stundin Okkar sem ég hafði ekkert á móti.

Árið 2002-2007. Birta og Bárður. Þau voru geimverur. Allt í lagi ég er tólf ára þarna. Tólf er aldurinn þar sem ég er orðin of gömul fyrir stundina okkar. Enda fannst mér Birta og Bárður ekki kúl. Ég hló að bláu latex göllunum þeirra (vildi reyndar óska þess í dag að eiga bláan latex galla). Ég bara tengdi ekki við þau. Geimverur. Grænn var líka uppáhalds liturinn minn á þessum tíma þannig þetta var dæmt frá upphafi held ég.

Árið 2007 til dagsins í dag. Snæfríður og Stígur. Er þetta búið að vera svona lengi? Wikipedia er eitthvað að rugla í mér. Ég hef greinilega ekki verið að horfa mikið á Stundina Okkar. Ég horfði samt á einn þátt og ég var ekki að kaupa þetta. Álfur í blokk. Ég hefði viljað sjá eitthvað meira ævintýra fjör. Ekki bara blokkar íbúð. Ég veit ekki.

Niðurstöður:
Mér finnst að Stundin Okkar hafi dalað með hverjum umsjónarmanni sem leið. Ég neita því ekki að hækkandi aldur minn hefur haft áhrif á þessa upplifun mína en ég mun miða alla umsjónarmenn Stundarinnar Okkar við Gunna og Felix. Ég sé svo sannarlega ekki eftir að hafa kastað fimleikadraumnum á glæ, það var þess virði. Gunni og Felix kenndu mér mjög margt um lífið og tilveruna sem að ég bý að enn þann dag í dag.

Ég að rifja upp góðar stundir með Gunna og Felix. Mér vöknar um augun.

Með von um góðar stundir
Kaupmannahafnar K

Share Post :

More Posts

2 Comments

  • Ragnheiður
    30th September 2012 at 8:59 pm 

    Ja nú er ég ekki sammála þér….Björgvin Franz var frábær. Birta og Bárður voru líka nokkuð góð, þú varst bara á óheppilegum aldri. En inn á milli koma alveg skelfileg fyrirbæri, sbr þetta sem er núna og er útskýringin á grænu bólunum sem við Mummi skörtum seinni part sunnudaga (því það er verið að endursýna þætti síðasta vetrar í hádeginu á sunnudögum). Þetta virðist vera að annar til þriðji hver umsjónarmaður sé mjög góður og svo komi eitthvað lélegt eða miðlungs í millitíðinni 🙂

  • katrinaagestad
    30th September 2012 at 10:11 pm 

    Jááá Björgvin Franz, ég stein gleymdi honum!

Hey! comments are closed.