Hægindastólar af konungsættum

DSC_0089_Fotor_Collage

Fyrsta húsgagnið okkar á Birkegade var þessi forláta stóll sem sést á myndinni fyrir ofan. Þessi með gula púðanum. Það hefur verið fyrstu helgina okkar í Kaupmannahöfn sem við álpuðumst í örvæntingu á einhvern flóamarkaðinn. Við áttum tvo diska, engin glös og sátum á pizzakössum á gólfinu til að forðast að fá flísar í óæðri endann.

Á þessum flóamarkaði kenndi ýmissa grasa. Við rákum augun í gullfallegan stól og hugsuðum með okkur að það væri skárra að sitja í stól heldur en á pizzakassa. Við spurðum hvað stóllinn kostaði og stelpan setti upp eitthvað verð. Við vorum ekki alveg vissar í okkar sök og prúttuðum stólin niður í 200DKK. Stelpan sagði já og amen við því, og tjáði okkur það að hún nennti engan veginn að bera stólinn aftur heim til sín. Þetta var ein af þessum “allir vinna” aðstæðum.

Næstum tveimur árum seinna erum ég og Sigrún á röltinu í Nørrebro og kíkjum inn í handahófskenda antík búð. Allskonar fínerí þar að sjá en ég rek augun í stólinn minn. Sem að við nánari athugun er ekki minn stóll, heldur grænleitur og mögulega fjarskyldur frændi. Ég kemst að því að stóllinn er hannaður af manni að nafni Søren Ladefoge og kostaði heilar 2700DKK í þessari sömu búð. Ég hélt öll þessi ár að ég væri að kúra mig í 5þúsund króna stól en var í rauninni að hafa það náðugt í 55þúsund króna mublu.

Fjandinn.

Þetta er ábyggilega svipað og að komast skyndilega að því að maður sé af kongungsættum.

Þetta eru klárlega bestu kaup sem við höfum gert. Maður veit ekki hvað maður hefur, fyrr en maður finnur nákvæmlega það sama í antíkbúðinni á horninu.

DSC_0005_01

Svo er hérna smá draugur úr fortíðinni. Drekkum úr plastglösum og notum pizzakassa sem borð. Minimalisminn í hámarki.

Bestu kveðjur

Katrín

Share Post :

More Posts