Að bora í vegg, mikið mál.

Ég setti upp hillur í gær. Við það verk þurfti ég að notast við bor. Ég skottaðist fram á stigagang, bankaði á íbúðina fyrir ofan, spurði nágranna minn hvort ég mætti fá lánaðan bor, já segir hún og við fórum upp á loft að sækja maskínuna.

Ég tók hillurnar úr plastinu, valdi viðeigandi stærð af bor, hlóð bor-batterí, mældi allt og merkti á vegginn. Þetta gekk vonum framar. Ég mundaði borinn og þá rifjaðist upp fyrir mér textabrot; “Að bora í vegg, ekkert mál”. Djöfull er ég kúl, ekkert mál að nota svona bor, tók mynd af mér á Snapchat þar sem ég hélt á bornum eins og James Bond. Mjög standard og eðlileg hegðun. En það sem Snapchat félagar mínir fengu ekki að vita, var hversu drullu flókið þetta ferli var.

Þegar ég stóð þarna inní herbergi, einum of kokhraust rak ég mig strax á fyrsta vegginn af mörgum í þessu ferli. Hvernig læt ég borinn í borinn? Og afhverju er orðaforði minn á borferlinu ekki til staðar? Ég dreg upp símann, hringi útlandasímtal í bróðir minn.

Bróðir minn útskýrði ítarlega hvernig þetta ætti að fara fram. Í hvaða átt allt ætti að snúast og hvernig ég ætti að festa borinn í. Það eina sem ég vissi fyrir, var að borinn á að snúast réttsælis. Það var einfaldlega vegna þess að í sumar þá hengdi fröken Sigrún Katrínardóttir upp hillur með sama bor, nema þá snerist borinn rangsælis. Það tók um það bil tvo klukkutíma. Nema síðasta gatið, þá fattaði hún að borinn væri að snúast í vitlausa átt, svo seinasta gatið tók ekki nema tíu sekúndur. Enn þann dag í dag er það mér mikil ráðgáta hvernig hún fór að því að bora í steinvegg með bor sem boraði afturábak.

Allavega. Borinn kominn í borvélina, ég skelli á bróður minn og þakka fyrir pent. Ég stekk upp á stól og byrja að bora. Það gengur bærilega, þangað til að það hættir að ganga bærilega. Ég tek eftir því að ég var með of lítinn bor fyrir skrúfuna sem átti að fara inn í vegginn. Ég geri heiðarlega tilraun til að skipta um bor, en neyðist til að hringja aftur í bróðir minn því ég gat ekki losað borinn úr borvélinni. Hann útskýrir, borinn fer út og bor af stærðinni 6,5 fer inn. Ég bora meira, en lendi svo í því að komast ekki lengra inn. Fjandinn.

Ég hringi þriðja útlandasímtalið þetta kvöldið og við bróðir minn eigum innihaldsríkt samtal um útveggi, steypuveggi og stálstólpa. Ég segist ætla að gefast upp og hengja helvítis hillurnar upp annarsstaðar og útskýra fyrir fólki að þessi tvö göt í veggnum séu partur af innsetningu sem endurspegli ástarlíf mitt. En bróðir minn er vandamálaleysir, hann ræðir við mig um mismunandi gerðir á borum. Með borvélinni fylgdu ekki nema þrjátíu mismunandi borar, sem að fyrir mér, sótsvörtum almúganum, gæti allt verið einn og sami borinn. Á einu boxinu rek ég þó augun í mynd af múrsteinsvegg. Ég gef mér það að það sé múrsteinsbor í þessu boxi. Ég festi borinn í, enda á þessum tímapunkti er ég orðin fær í flestan sjó og kippi mér ekki upp við að skipta um bor. Gæti dundað mér við það fram undir morgunn þess vegna.

Við ræðum einnig um mismunandi stillingar á bornum, hann mælti með því að ég væri með stillt á höggbor. Þá er semsagt stillt á mynd af hamari. Síðan eru tölur á þar til gerðri skífu frá einum upp í sextán, ég stillti græjuna á sextán, enda er mitt mottó allt eða ekkert. Síðast en ekki síst er stilling sem maður getur haft á einum eða tveimur, ég stillti að sjálfsögðu á tvo. Síðan boraði ég.

Núna á ég enga inneign á símanum en ég á tvær mjög lekkerar hillur, pikkfastar uppi á vegg og bor-orðaforða á við sextugan iðnanarmann.

Þið vitið hvert þið eigið að hringja ef að ykkur vantar aðstoð varðandi ástand og virkni bora.
Þið getið fundið númerið hjá bróður mínum á já.is.

DSC_0041

Tel það borgaralega skyldu mína að setja inn mynd af herlegheitunum. Festi hillurnar yfir plakat frá hljómsveitinni Reptile Youth. Mæli með að fólk kynni sér hana bara.

Katrin Aagestad Gunnarsdóttir

Share Post :

More Posts

2 Comments

  • Sólveig Sara
    30th October 2014 at 1:15 am 

    Þegar ég fékk snapchat frá þér þá hugsaði ég “rosalega er Katrín flínk að hengja upp hillur” 🙂 En gott að þetta bjargaðist 😉

  • arnyfjola
    30th October 2014 at 6:40 am 

    Drulludugleg! Maður bjargar sér bara! Sniðugt að hengja yfir plaggat, mjög kúl hugmynd.

Hey! comments are closed.