Að sitja Twitter hestinn

Twitter er vinsælt.

Ef að Twitter er vinsælt þá hlýtur fólk að fá ákveðna ánægju út úr því að nota Twitter. Ég kann ekki á Twitter. Ég skil ekki leikreglurnar. Ég veit að maður tístir 140 stöfum og reynir gjarnan að vera sniðugur. Maður slær um sig með myllumerkjum. Það er stjarna þarna sem þýðir að einhver mælir sérstaklega með tístinu mínu og svo er hægt að endurtísta.  Núna langar mig að þekkja leikreglurnar. Ég nefnilega legg ósjálfrátt Facebook reglugerðina mína yfir á Twitter.

Ég er búin að vera í miklu millibils ástandi með Twitter. Ég elti mjög tilviljanakennt fólk, fríka reglulega út og er hrædd um að ég sé að haga mér eins og eltihrellir því ég veit ekki hvern er viðeigandi að elta og hvern ekki. Ég sé tíst sem að talar til mín og langar að öskra HALLELUJAH því ég tengi svo mikið við tísthöfundinn, en svo stari ég á stjörnuna og þori ekki að ýta á hana. Ég veit ekki hvort að ég þekki tísthöfund nægilega mikið til þess að viðurkenna tíst hans með stjörnu, eða þá hvað þessi stjarna raunvörulega táknar.

Þetta er dálítið eins og að vera félagslega heftur, en bara á netinu. Samfélagsmiðla heftur. Ég bið einhvern, bara einhvern, að gera lítið góðverk í dag og aðstoða mig í að losna við samfélagsmiðla heftun mína.

Ég bið um svör við eftirfarandi spurningum.

  • Er í lagi að elta alla sem maður vill, eða þarf maður að þekkja viðkomandi? Væri t.d. við hæfi að ég elti einhvern sem að ég fór í sleik við á framhaldsskólaballi en hef ekki tala við síðan og mundi líklegast ekki heilsa úti á götu?
  • Hvað er maður að ýta oft á stjörnuna að jafnaði á dag? Er þetta svona tækifæris fyrirbæri ef að t.d. viðkomandi er einstaklega hnittinn, eða er þetta meira “ég flissaði yfir þessu” notkun.
  • Í hvaða tilfellum er maður að endurtísta? Hvenær er það við hæfi?
  • Fæ ég meira út úr Twitter ef að minn nánasti vinahópur eru virkir notendur, eða er þetta eins og að keppa í íþróttum þegar maður er sjö ára og allir fá medallíu bara fyrir að vera með?
  • Hver er viðeigandi fjöldi tísta á dag og hvenær er maður farinn yfir strikið? Þ.e. er ég að fara að tísta eins og gamalmenni sem er ólmt í að ræða hægðir sínar við hvern sem það mætir, fjölda hægða þann daginn, áferð, lit og lykt? Eða er þetta meira gæði yfir magn?

 

Þetta er svona það helsta sem ég hef verið að velta fyrir mér. Finnst þetta spennandi vettvangur en ég bara kann ekki að vera með. Vona að einhverjir vinir mínir sjái sér fært að aðstoða mig við að fóta mig í þessu nýja samfélagi. Ég lofa að vera fyndin. Og ekki tala um hægðir.

 

Ykkar Katrín

Share Post :

More Posts