Af nafngiftum og öðrum vinsælum borðspilum

Núna á ég tvær vinkonur sem nýlega hafa alið barn. Það þykir afar vinsælt að skíra börnin. Sumir foreldrar kjósa að skíra afkvæmi sín eftir ættingjum sem þeim þykir mikið til koma. Ég er til dæmis skírð í höfuðið á ömmu minni og mér þykir óendanlega vænt um að bera sama nafn og sú magnaða kona. Mannanafnanefnd tilkynnir endrum og eins ný nöfn sem hafa verið tekin í gildi, sum undarlegri en önnur, en það er alltaf áhugaverð lesning.

Það þarf að huga að ýmsu þegar skíra skal barn. Maður þarf að vara sig á ýmsum gildrum sem okkar ástkæra ylhýra getur lagt fyrir óvarkára foreldra. Leifur Arnar er klassískt dæmi. Fallbeygingin kemur manni allsvaðallega á óvart.
Skoðum þágufallið örlítið betur.
Hér er Leifur Arnar, um Leif Arnar.
Skeiti maður fornafni og millinafni saman fáum við orðið nafnorðið leifarnar. Leifar er orð í neikvæðari kantinum. Leifar er það sem maður skilur eftir á diskinum sínum þegar maður er búinn að fá nóg. Oft er leifunum hent í hænurnar eða fátæka. Á ríkari heimilum fara leifarnar beina leið í ruslið. Ekki viljum við að barnið okkar beri nafn um eitthvað sem að fari í ruslið.

Nýbakaðir foreldrar, fallbeygið áður en þið látið séra skvetta vatni á koll barnsins.

Fyrir frjálslynda og áhættusama foreldra eru til nöfn sem eiga eftir að fá ömmuna til að taka andköf í kirkjunni og frænkurnar til að tala á innsoginu svo dögum skipti. Foreldrar Þorstínu Undínu Guttadóttur og Hersteins Hersveins Sillasonar hefðu mögulega fengið kæru vegna manndráps af gáleysi og aldursforsetar ættarinnar hefðu vafalaust fengið hópafslátt á gangráðum eftir skírn erfingjans.

Síðan eru til frumlegri leiðir. Ég tel það vera upplagt að krydda aðeins upp á gamlar hefðir. Allar skírnir fara nokkurnvegin fram á sama máta. Nafnið er tilkynnt, öllum finnst eitthvað um það, allir fá sér köku.

Ég ætla að setja á markað „Skírnar Bingó“.

Skírnar Bingó fer þannig fram að allir gestir fá bingóspjald. Þetta bingóspjald lítur þannig út að í staðin fyrir tölur er stafarugl. Það muna allir eftir svona stafarugli, þar sem maður leitar í ruglinu eftir orðum og dregur hring utan um orðið. Eftir að gestir hafa fengið spjald í hönd (það þarf vissulega að borga fyrir hvert spjald því startpakki fyrir svona barn er ekkert grín) þá meiga leikarnir hefjast. Foreldrarnir eru vissulega bingóstjórar. Þeir fara í steinn, skæri, blað upp á það hver eigi að snúa hjólinu og hver eigi að lesa upp staf. Í staðin fyrir tölur eru bókstafir. Þegar lesið er upp skal lesa á þennan máta „A fyrir Aron, A fyrir Aron, K fyrir Katla, K fyrir Katla og svo framvegis. Sá gestur sem er fyrstur til að fá heilt nafn í nafnaruglinu vinnur og fær að fara fyrstu í kökuröðina og auðvitað hlýtur barnið bingónafnið. Eftir að gestir eru búnir að gæða sér á köku þá er standandi bingó til að finna út hverjir guðforeldrarnir verða.

Ég vona að þið Fanney og Gríma lesið þetta blogg og takið þetta til athugunar og vandið valið. Einnig væri ánægjulegt ef þið gætuð startað trendinu sem Skírnar Bingó er.

Flippaðar stuðkveðjur
Katrín

DSC_0002

PS. Var að kaupa mér kaktus, þarf endilega að skíra hann. Allar hugmyndir teknar til greina. Ef ekki, þá er Skírnar Bingó á Birkegade næsta sunnudag!

Share Post :

More Posts

3 Comments

 • ingamaria14
  7th August 2013 at 11:23 pm 

  finnst hann ætti að heita Brútus…kannski Skjöldur en helst Brútus.

 • munda kristin aagestad
  7th August 2013 at 11:50 pm 

  …góðar pælingar :)…….Krúsi kannski…eða bara Knúsi því engan langar að kúsa hann…

 • Hrefna Sig
  8th August 2013 at 1:54 pm 

  þetta er frábær lesning og finnst mér standandi bingó eitt besta niðurlag sögunnar ! heyr heyr

Hey! comments are closed.