Allt þetta undarlega í ísskápnum okkar

Þetta er Halla Marín.

Við búum saman.

Hún er grænmetisæta (e. vegetarian).

Merriam Webster orðabókin skilgreinir hugtakið á eftirfarandi hátt.

 

Definition of VEGETARIAN

1

: of or relating to vegetarians

2

: consisting wholly of vegetables, fruits, grains, nuts, and sometimes eggs or dairy products <a vegetarian diet>

Ég hef aldrei séð eins mikið magn undarlegra ávaxta, grænmetis og bauna-related-fæðu eins og eftir að ég hóf sambúð með Höllu.

Í gær stóð ég til dæmis við eldavélina og smellti í salat og sauð kínóa fræ. Fyrir fjórum vikum vissi ég ekki einu sinni að það væri orð.

Kínóa.

Kínverja fræ.

Ég veit ekki.

En í dag er ég með allt á hreinu hvað viðkemur undarlegum ávöxtum og öðru baunalegu. Á þessum fjórum vikum sem liðnar eru af sambúð okkar er ég búin að sjá ótrúlegustu hluti í ísskápnum. Sumt er örlítið óhugnarlegt en annað er bara krúttlegt og grænt. Ég hef upplifað tilfinningar sem ég vissi ekki að ég bæri til grænmetis. Ég hef verið reið, ég hef verið glöð, ég hef öskrað af hræðslu og borðað baunaspíru.

Ég vil bjóða ykkur að stíga inn í ævintýralandið eða öllu heldur ísskápinn á Birkegade.

Ég stökk inn í ísskápinn áðan og dró fram það helsta sem gefur að líta í grænmetis-vegetarian-bauna-málunum.

Ég ákvað að byrja rólega og draga fram eitthvað sem margir kannast við. Avocado. Grænn og vænn félagi. Ég hef aldrei þorað að kaupa svona undarlega útlítandi félaga fyrr. Í fyrsta lagi vissi ég ekki hvenær hann væri tilbúinn til átu og í öðru lagi þá lýtur þetta alls ekkert vel út (dálítið eins og sirkús saur ef þið spurjið mig). Það er ekki svo gott að vita hvenær avocado félagi er klár í slaginn, maður verður bara að prófa einn og sjá hvernig hann er inní. Ég held samt að það sé betra ef hann er smá ljótur. En þetta er hollt og grænt.

Hæ, ég heiti Engifer. Ég veit alveg hvað engifer er, en ég hef aldrei verið útí búð og hugsað; “Hei, djöfull ætla ég að kaupa engifer og nota það í matinn minn”. En það vill svo til að í dag nota ég engifer í matinn minn. Það gefur þessu svona veitingahúsalegan brag og eitthvað bragð sem að mér þykir bara mjög gott. Eða eitthvað. Líka skít fínt í búst. Mjög gott og sterkt og gott í kvef. Bless Engifer.

Kúrbítur. Það er fáránlegt nafn! Kúrbítur er eins og vangefin gúrka. Eða eins og fjarskyldur frændi gúrkunnar. Eftir að ég var búin að eyða töluverðum tíma á rannsóknarstofunni minni þá komst ég reyndar að því að kúrbítur er ættingi graskersins. Hann fæddist á Ítalíu og svarar mörgum nöfnum, s.s. dvergbítur, súkkíní, courgette og squash. Hann er príðilegur til átu hrár og steiktur og soðinn og hvernig sem stendur á manni. Hann er alltaf hress.

Annar svipaður náungi. Eggaldin. Ekkert sérstaklega gott hrátt. Mjög gott að steikja það upp úr mikilli olíu og þá verður það mjúkt og bragðgott og bráðnar uppí manni. Ég er nokkuð viss um að það sé frá Indlandi. Ekkert að því.

Þetta er spínat. Ekkert undarlegt við það en ég keypti mér aldrei spínat þegar ég bjó á Íslandi. Núna á ég mjög oft spínat. Áfram spínat. Prótín og gott og grænt.

Svo er það rúsínan í pylsuendanum. Kínóa fræ. Maður sýður þau og lætur þau liggja í vatninu í svona 20 mínútur og þá stækka þau og klístrast og verða glær og þau eru bara skítfín. Kínóa fræ fá verðlaunin fyrir undarlegasta matinn sem er í ísskápnum mínum því þetta lítur út eins og ekki neitt. Hvaðan koma þessi fræ? Ég veit það ekki. Ég borða bara.

Ég enda þessa ferð á mjólkinni minni. Hún er ökólógísk eins og hvað flest sem hægt er að finna í búðunum hér. Hún fer útá hafragrautinn minn á morgnanna og ofaní kaffið mitt og veitir mér mikla hamingju.

Ég á ennþá margt ólært af Höllu og ég bíð spennt eftir að opna ísskápinn eftir næstu búðarferð og sjá eitthvað óhugnarlega framandi og skrýtið.

Mæli með því að sem flestir fari útí búð og kaupi eitthvað skrýtið sem ekki hefur farið ofaní körfuna áður.

Út fyrir endimörk þægindahringsins!

Verði ykkur að góðu

Kaupmannahafnar K

Share Post :

More Posts

2 Comments

  • Elsie
    20th September 2012 at 5:48 pm 

    Þú ert fyndin og grænt er vænt

  • katrinaagestad
    20th September 2012 at 10:11 pm 

    Elsie þú ert það líka, og væn í þokkabót

Hey! comments are closed.