Heyri ég í mér?

Haustfríið er byrjað.

Í gær var fyrsti frídagurinn og ég sofnaði þrisvar sinnum yfir daginn. Það er klassískt dæmi hvernig ástandið er á mér fyrsta frídag eftir törn. Ég veit bara ekkert hvað ég á að gera. Ég þarf að læra að vera í fríi. Svo loksins þegar ég er búin að læra það þá byrjar törnin aftur.

Bróðurpartur morgunsins fór í að horfa á TED örfyrirlestra. Ég horfði á einn gamlan fyrirlestur sem ég hef horft á áður með Ken Robinson. Hann talar um að skólar drepi sköpun (schools kill creativity).

Þetta kveikti í mér.

 

Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða annað hvort lögga eða listmálari þegar ég yrði stór. Ég sá einu sinni lögreglukonu á leiðinni í skólann og fannst hún vera mjög kúl og mér gekk vel í myndmennt. Það var nú grunnurinn fyrir þessum framtíðardraumum. Þegar ég varð sjö ára þá ákvað ég að ég vildi verða leikkona. Eftir það komu fleiri framtíðardraumar og síðan var ég komin í framhaldsskóla.

Eftir fund með námsráðgjafa byrjaði ég á náttúrufræðibraut því það var augljóslega eina vitið ef ég ætlaði að eiga einhverja framtíð. Í framhaldsskóla tók ég þátt í leikritum. Ég fórnaði ýmsu fyrir leikritin. Ég hætti í frjálsum og eyddi gífurlega miklum tíma í þessi verkefni. Ég elskaði að vera partur af þessu. Leiklist var alltaf á hliðarlínunni og mér datt aldrei í hug að ég gæti gert það að framtíðar atvinnu. Það var alltaf litið á þetta sem áhugamál.

Fjórum framhaldsskóla leikritum síðar útskrifaðist ég af tveimur brautum og frekar sátt með mig. Ég vissi ekkert hvað mig langaði að læra en ég prófaði að fara í prufur í LHÍ. Ég komst ekki inn. Það er ekki það auðveldasta í heimi að komast í leiklistarnám á Íslandi. Tíu manns komast inn annað hvert ár. Það var ekki til að auka væntingarnar. Það er auðvitað hægt að sækja um í útlöndum en mér datt það ekki í hug, alltof ógnvekjandi. Ég gæti það ekki.

Ég ferðaðist í eitt ár og kom svo heim til Íslands. Ég tók ákvörðun um að fara í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. Viðskiptafræði er mjög örugg leið fannst mér. Mæta í tíma, lesa bækur, ná prófum, útskrifast og fá vinnu. Mér finnst viðskiptafræði alveg áhugaverð, sérstaklega stjórnun. En ég fann að þetta var ekki alveg minn tebolli. Það var alltaf eitthvað sem var ekki að virka. Ég var svo auðvitað í Stúdentaleikhúsinu meðfram náminu. Leiklistin alltaf þarna flögrandi í kring um mig en aldrei aðalatriðið. En ég fer aftur í prufur fyrir LHÍ og kemst lengra en í fyrstu prufunum en það var ekki nóg.

Í einhverju rekstrarhagfræði þunglyndinu fer ég í ísbíltúr með Sif. „Eigum við ekki bara að skella okkur í prufur fyrir þennan danska skóla þarna, það sakar ekki“. Ég var búin að hætta við að fara í þessar prufur, ég var búin að gefast svo mikið upp. Ég var líka skít hrædd við að flytja til útlanda ef ég kæmist inn og þurfa að læra á öðru tungumáli. En ég fer í prufur og kemst inn í leiklistarskóla.

Afhverju trúði ég því svona mikið að ég gæti ekki orðið leikkona? Afhverju hélt ég svona mikið aftur af mér og lokaði á þessa löngun? Afhverju fannst mér ég vera að gera eitthvað rangt við það að vilja fara þessa braut í lífinu?

 

Í TED fyrirlestrinum er sagt að í öllum samfélögum sem bjóða upp á menntun er alltaf sama stigveldið í því hversu mikil áhersla er lögð á ákveðin fög. Efst er stærðfræði og tungumál, næst koma samfélagslegu fögin og neðst eru listirnar. Tónlist og myndlist er alltaf ofar heldur en leiklist og dans.

Það er ekkert rangt við það að vilja verða leikkona og ef þig langar að verða tónlistarmaður gerðu það bara. Ef þú villt verða lögfræðingur dúndraðu þér þá í það.

Það er ótrúlega erfitt að finna út hvað maður vill verða og hvað maður á að verða því það eru svo margar raddir í kring um okkur sem segja okkur hvað við eigum að vera og hvað ekki og þessvegna getur verið ótrúlega erfitt að heyra í sinni eigin rödd.

Á hverjum morgni hlakka ég til að fara í skólann. Þannig á manni að líða. Ég veit núna að ég er á hárréttum stað.

 

BÚMM

Hér er fyrirlesturinn frá með Ken Robinson frá árinu 2006. Ken Robinson says schools kill creativity.

Hann var með annann fyrirlestur fjórum árum seinna sem er eiginlega framhald af fyrirlestrinum hérna fyrir ofan og er alls ekki síðri, eiginlega bara betri. Sir Ken Robinson: Bring on the learning revolution!

Very many people go through their whole lives having no real sense of what their talents may be, or if they have any to speak of. — Ken Robinson

 

Many highly talented, brilliant, creative people think they’re not — because the thing they were good at at school wasn’t valued, or was actually stigmatized. — Ken Robinson

 

You were probably steered benignly away from things at school when you were a kid — things you liked — on the grounds that you would never get a job doing that: ‘Don’t do music, you’re not going to be a musician. Don’t do art, you won’t be an artist.’ Benign advice — now, profoundly mistaken. — Ken Robinson

 

Mæli með þessu fyrir svefninn.

Kaupmannahafnar K

Share Post :

More Posts

5 Comments

 • Berglind
  16th October 2012 at 11:46 pm 

  Flottur pistill hjá þér kæra vinkona, stolt af þér að hafa látið drauminn þinn rætast!

 • munda kristin aagestad
  17th October 2012 at 4:07 pm 

  Aldeilis góð pæling 🙂

 • Anna Gína
  17th October 2012 at 10:40 pm 

  Flott hjá þér Katrín og sannarlega hvetjandi skrif fyrir unga sem aldna. Held ég geri eitthvað að viti mjög fljotlega eftir þessa lesningu. Gangi þér vel að læra að vera í fríi, og góða skemmtun:)

 • katrinaagestad
  18th October 2012 at 6:15 pm 

  Takk kærlega fyrir, það er svo búið að ganga mjög vel að vera í fríi get ég sagt þér 🙂

 • Elsie
  17th November 2012 at 5:02 pm 

  Þú ert fyrirmyndar K-áið mitt í lífinu! Stolt af þér 🙂

Hey! comments are closed.