Hnetusmjörs+hunangs mjólkurhristingur fyrir sára fætur

Við erum búnar á því í löppunum í dag.

Í dag var dynamisk krop. Eftir tímann var ekki þurr þráður á bolnum mínum. Ég uppskar einnig þrjár blöðrur á hægri il og blöðru ofaná blöðru á stóru tá á vinstri fæti. Þannig ég á mjög bágt með gang og þjáist mögulega af vökvaskorti.

Halla fékk líka risa blóðblöðru á stóru tánna sem var hálf ógeðsleg. Hún framkvæmdi ódeyfða aðgerð með eldhúshníf á tánni á sér áðan. Það var ekki hugguleg sjón. Mín meðferð innihélt kókosolíu á fætur og þykka sokka.

Það er annar dynamisk krop tími í fyrramálið. Ég á eftir að skilja eftir mig blóði drifna slóð á morgun útum allan skóla.

Mér og Höllu tókst samt sem áður að staulast útí Netto að kaupa hráefni í hnetusmjörs og hunangs mjólkurhristing. Það er meistaramánuður í næstu viku og okkur er illt í löppunum og okkur langaði bara í eitthvað gott.

Oh lord það var þess virði.

Mér finnst mjög skemmtilegt að skýra hluti svo ég ætla að skýra þennan fína hristing. Hann fær nafnið Styrmir.

Svona búum við til Styrmi.

Styrmir samanstendur af eftirfarandi hlutum.

Hálfur banani
500g vanillu ís 
Einn og hálfur bolli kókos mjólk eða venjuleg mjólk
Fjórar matskeiðar hnetusmjör
Tvær matskeiðar hunang

Hér er ísinn kominn ofaní. Við vorum mjög stórhuga og ákváðum að gera tvöfaldan Styrmi.

Síðan lætur maður allt hitt í blandarann og hrærir allt havaríið saman. Við létum ísinn fyrst og svo bættum við við einu og einu hráefni og hrærðum þess á milli. Svo er bara að hella þessu í falleg glös, rör á kanntinn og…

VOILA!

Þetta er ekki af verri endanum og skelfilega auðvelt í framkvæmd.

En mál málanna!
Við létum leyni hráefni í blönduna.

BÚMM

Litla lísa var í Nettó á tilboði. Hún kostaði bara sjö krónur. Algert yndi. Þetta var alveg rúsínan í pylsuendanum eins og sést á Höllu. Smella þessu í blandarann og svo má bera herlegheitin fram. Þess má geta að Litla lísa er sambærileg Klóa sem er ættaður frá Íslandi.

Og ég er ekki að hata þetta (hér má einnig sjá gott dæmi af því hversu tuskuleg ég er eftir daginn).

Verði ykkur að góðu.
Ég ætla að reyfa það sem er eftir af fótunum mínum.

Gleði og hamingja!
Kaupmannahafnar K

Share Post :

More Posts

3 Comments

 • munda kristin aagestad
  27th September 2012 at 11:22 pm 

  …frekar tuskuleg mundi ég segja…..drífa sig í háttinn er hollráð dagsins 😉

 • Herdís
  28th September 2012 at 8:57 pm 

  Ég elska bloggin þín! Gangi þér áfram vel í dk! 🙂

 • katrinaagestad
  28th September 2012 at 9:25 pm 

  Mamma: Já það er eitthvað sem vantar í orkubankann hjá mér 🙂
  Herdís: Takk fyrir það elsku Herdís!

Hey! comments are closed.