Hvernig er annars veðrið heima?

Af og til fæ ég heimþrá. Til dæmis er ég að upplifa heimþrá þessa dagana. Síðast þegar ég var á Íslandi var ég að háma í mig páskaegg, og það er þó nokkuð langt síðan. Þegar ég segist sakna Íslands þá meina ég samt að ég sakni fólksins míns á Íslandi.

Vinkonur mínar eru byrjaðar að fjölga mannkyninu, litlu frænkur mínar fara bráðum að ná mér í hæð þó að þær séu nánast nýfæddar og mér finnst ég vera að missa af öllu, þó að ég sé ekki að missa af neinu.

Heimþráin er samt ekki lengi að hlaupa aftur í litla hornið sitt þegar ég vakna á morgnanna og fer í Háskólann, sem að ég borga ekkert fyrir að ganga í, þó svo að ég sé útlendingur í þessu landi.

Heimþráin gufar upp þegar ég fæ rúman hundraðþúsundkall í námsstyrk frá danska ríkinu í hverjum mánuði, sem að ég þarf aldrei að borga til baka.

Heimþráin hverfur líka þegar ég fer til heimilislæknis án þess að þurfa að taka veskið með mér, svo ég tali ekki um krabbameins skoðun, eða aðgerð í framhaldi af því og eftirlit á þriggja mánaða fresti hjá sérfræðingi, þar borga ég bara með brosi og góðri mætingu.

Í dag er 22. október, ég hjólaði heim úr vinnunni á peysunni og týndi heimþránni einhverstaðar á leiðinni.

 

Hvernig er annars veðrið heima?

Share Post :

More Posts