Í hringnum

Ég er ennþá á einhverjum niðurtúr eftir að vera komin heim frá Tælandi. Sem að er ekkert nema venjulegt. En auðvitað er gott að vera komin aftur heim í smá rútínu og sumar. Þvílík forréttindi að hafa fengið að sleppa við veturinn. Koma aftur hingað út og smeygja sér í stuttbuxur og hlýrabol.

Ef það er einhver minning sem situr í mér eftir Tælands ævintýrið þá er það þegar ég fór í hringinn, eða öllu heldur tilfinningin sem ég upplifði í hringnum.

Ég var búin að vera að æfa muay thai í þrjár vikur þegar mér og annarri stelpu, sem ég kynntist þarna úti, var boðið að fara í hringinn. Ég hugsaði að svona tækifæri neiti maður ekki, þó ég væri alls ekki viss með þetta, þá kom einhvernvegin ekki annað til greina en að kinka kolli og segja já takk.

Þegar maður er að æfa, hvort sem maður fer í ræktina að lyfta, fótboltaæfingu, synda eða hvað annað, þá er oft auðvelt að gera hlutina með hangandi hendi og vera góður við sig. Maður tekur því rólega á æfingu því maður svaf svo lítið um nóttina, er að fara að vinna í allan dag, gleymdi að borða morgunmat og allar fáránlegar afsakanir sem að virðast samt ekkert svo fáránlegar í augnablikinu sem maður notar þær.

Í hringnum eru engar afsakanir. Þar ert þú, og á móti þér er andstæðingurinn þinn. Ef að þú ert ekki að fara að gera þetta 100% þá er andstæðingurinn að fara að pakka þér saman.  Það er enginn að fara að taka létt á því því það er sunnudagur eða því einhver er að drepast úr harðsperrum eða hælsæri.

Það er ótrúlegt að finna hvernig öll skilningarvit fara á yfirkeyrslu og það kemst ekkert annað að. Maður verður partur af einhverjum heimi sem að hringurinn afmarkar og maður hugsar ekki út fyrir þann heim, sama þó að það séu tugir manns sem sitja þétt upp við hringinn og hvetji mann áfram. Í þessu mómenti hef eg einhvernvegin aldrei komist eins nálægt sjálfri mér. Þarna sá ég nákvæmlegla hvers megnug ég var, því þarna stendur maður algerlega á eigin fótum og það er enginn sem getur hjálpað manni. Allt veltur á þér sjálfum. Þessi tilfinning var líka það sterk, að eftir að ég kem heim þá er það alltaf þessi tilfinning og þetta augnablik sem að hugurinn leitar til þegar ég hugsa til baka, þó svo að ég hafi upplifað helling af öðrum ævintýrum sem að lifa í minningunni.

Útaf þessari tilfinningu langar mig aftur í hringinn.

Ég læt fylgja með nokkrar myndir sem ég tók af æfingum úti.

ImageImageImageImageImage2014-02-22 21_Fotorj_Fotor_Collage

Eins og sjá má þá eru þetta nánast eingöngu gaurar sem ég æfði með. Ég var ein í gauralandi í næstum þrjá mánuði, ég beið bara eftir því að mér mundi vaxa pungur.

Mig langar aftur til Tælands.

Kærar kveðjur
Katrin Aagestad Gunnarsdóttir.

Share Post :

More Posts

3 Comments

 • Peggs
  24th May 2014 at 12:36 am 

  Þú ert snillingur <3

 • Sólveig Sara
  25th May 2014 at 7:19 pm 

  Algjör harðnagli Katrín!

 • katrinaagestad
  26th May 2014 at 9:16 am 

  Takk dúllurnar mínar, þið komið svo með næst!

Hey! comments are closed.