“Identity” pervert

Ég er “identity” pervert.
Ein af ástæðum þess sem mig langaði að verða leikkona var að fá að vera allskonar týpur.

Ég er búin að finna upp á ótal listamannsnöfnum fyrir þá ólíku karaktera sem mig langar til að vera. Eftir að ég byrjaði í náminu mínu þá eru þessi listamannsnöfn líka komin með logo og það líður ekki á löngu áður en hver og einn listamaður fær sína eigin heimasíðu. Svo má guð vita hvenær þessir listamenn byrja að starfa af alvöru.

Ég er raftónlistarmaður sem gengur undir nafninu RafReen, ég er komin með logo og coverið á fyrstu plötuna mína. Lögin láta hins vegar aðeins á sér standa.

Það hefur lengi verið draumur minn að vera plötusnúður. Plötusnúðar eru upp til hópa mjög svalt fólk. Þegar það kemur að því að ég stígi á stokk sem slíkur þá mun ég gangast undir nafninu DJ Ligeglad. Þangað til mun ég búa til djúsí lagalista á Spotify.

Ég var bloggarinn Kóngsins Katrín og var satt að segja mjög dugleg til að byrja með. En ég er ekkert svo hrifin af því nafni lengur og hef breytt tiltlinum á blogginu í Frøken Aagestad, en mér finnst það endurspegla sálartetur mitt betur en það fyrrnefnda.

Sömuleiðis er myndasögunafnið mitt Frøken KISI. Ég gerði eina myndasögu. Mér fannst hún mjög sniðug. En það koma ábyggilega fleiri seinna meir. Ég er allavega með listamannsnafn.

Miðað við all þetta þá ætti ég kannski að snúa mér að því að verða “identity” hönnuður fyrir hina ýmsu listamenn, aðra en sjálfa mig. Nema auðvitað að það verði of mikið að gera hjá mér í raftónlistinni. Allar helgar munu fara í að þeyta skýfum sem DJ Ligeglad og á morgnanna drekk ég kaffi í lítratali og bý til myndasögur, fæ mér mögulega eins gleraugu og Hugleikur Dagsson. Síðan bloggar Frøken Aagestad um ævintýri vikunnar og kemur með hárbeitta samfélagsádeilu sem fær alla til að hugsa sinn gang. Á endanum birtast pistlar eftir mig í fréttablaðinu og á visir.is.

En ég er farin að búa til heimasíðu, logo og fjárhagsáætlun fyrir nýja “identity” fyrirtækið mitt.

Bæ.

Share Post :

More Posts