Lyklar lífs míns

Ég á níu lykla.

Þeir eru af nokkrum gerðum og vega 120 grömm.

Þeir búa saman á einni kippu með auðkennislykil sem nágranna.

Ég hugsa með bros í hjarta til baka þegar tímarnir voru einfaldari. Þegar ég skottaðist um götur bæjarins með einn lykil í vasanum. Þessi lykill gekk að heimili mínu. Sá lykill hefur varla vegið meira en 13 grömm og hann fór þægilega í vasa. Það var varla að maður tæki eftir honum svo nettur og hlédrægur var hann. Eitt hús, einn lykill, eitt skráargat. Einfaldir og góðir tímar sem eru mér fjarlægur draumur núna.

Ég þarf alltaf að vera að læsa öllu. Húsinu, hjólinu, skólanum og skápnum í skólanum. Flestu af þessu verður líka að marglæsa. Marglæsa, ég er að segja ykkur það. Þetta er nú einusinni Nörrebro svo það er eins gott að vera marglæstur, vel lyklaður og lokaður með stáli.

Með íbúðinni fljóta ekki nema fimm stykki lyklar sem allir hafa þann göfuga tilgang að halda hlutum óhulltum og læstum. Hinir ganga að hjólinu og skólanum.  Mig langar að telja upp lyklana mína. En ég ætla að reyna að gera það á sem ánægjulegasta hátt sem hægt er því ég veit vel að það er ekki gaman að lesa um lykla sem einhver pía í Kaupmannahöfn á.

Dyravörðurinn
Hann gengur að húsinu sjálfu. Þessi félagi er kassalaga og sterklegur. Hann ræður því hver kemst inn í bygginguna og hver ekki. Ábyrgðarfullur þessi.

Póstmaðurinn
Þessi hleypir manni að póstinum. Hann er frekar lítill um sig og glansar nokkuð því þessi félagi er glæ nýr í vinnunni sinni. Hann stendur sína vakt um bleðla, ábyrgðarpóst, flugpóst, sjópóst og passar upp á stimpla og frímerki.

Lífvörðurinn
Lífvörðurinn passar upp á að enginn komist inn í íbúðina okkar. Hann lítur út fyrir að vera valdalítill þar sem hann hangir á kippunni íklæddur blóma munstri en það er allt með ráðum gert. Hann fer huldu höfði því hann er lykillinn að því hvort við lifum eða deyjum.

Sérsveitin
Ef að lífvörðurinn er tekinn niður þá mætir sérsveitin á svæðið því að BÚMM það eru tveir lyklar að hurðinni okkar. Þessi er hringlaga og langur og lítur vægast sagt einkennilega út. Hann er útbúinn sérbúnaði og er fjórfaldur í laginu. Vel þjálfað kvikindi sem hleypir engum fram hjá sér.

Garðyrkjumaðurinn
Undirrituð er mikill garðunnandi (eða eitthvað) og það vill svo skemmtilega til að ég get skottast niður í garð beint innan úr íbúðinni. Garðyrkjumaðurinn er vænn og hleypir mér oftar en ekki inn í garð.

Lance Armstrong yngri
Smágerður kumpáni sem að gengur að stórum lás. Hann Lance yngri er yfirmaður yfir slöngulás nokkrum sem smeygir sér utan um dekkið og heldur hjólinu gjarnan föstu við staur eða annað sem verður á vegi mínum þegar læsingar er þörf.

Lance Armstrong eldri
Stærri lykill sem gengur að litlum lás. Lance eldri er yfirmaður yfir lás sem er fastur við hjólið og hindrar gang aftara hjólsins. Þetta er algeng týpa af lás hér í Kaupmannahöfn svo þessi stjórnunarstaða er eftirsóknarverð og hefur Lance eldri staðið sig með príði hingað til.

Listamaðurinn
Listamaðurinn gætir skólans míns. Hann passar upp á að ég fái að sinna námi mínu allan sólarhringinn og hann tekur því starfi mjög alvarlega og stendur vaktina allan sólarhringinn á kippunni.

Skápahomminn
Skápahomminn er númer þrjátíu og sex. Hann stjórnar því algerlega hver eða hvað fer inn í skáp og hvenær það skal út aftur. Á meðan eitthvað er inní skáp er það óhullt því skápahomminn er góður í feluleik og lætur ekki ná sér svo auðveldlega. Hann opnar bara skápinn þegar hann er tilbúinn og á réttu stundinni.

Saman förum við í gegnum daginn og upplifum lífið saman.
Þessir vinir mínir hjálpa mér á hverjum degi og hleypa mér á þá staði sem ég verð að fara á.
Þakka ykkur fyrir kæru vinir.
Við sjáumst á morgun.

Fallegt og gott

Kaupmannahafnar K

Share Post :

More Posts

3 Comments

 • Elsie
  8th September 2012 at 6:51 pm 

  Haha alltaf les ég bloggin þín með rödd Ebba sjónvarpstjóra í huga mínum! Fyndið og skeppilegt!

 • katrinaagestad
  8th September 2012 at 6:57 pm 

  Haha Ebbi sjónvarpsstjóri er líka töluverður áhrifavaldur í lífi okkar Elsie.

 • munda kristin aagestad
  8th September 2012 at 7:55 pm 

  Hrikalegt ástand ef allir gaurarnir týnast……..eins gott að eiga góða að í danaveldinu 🙂

Hey! comments are closed.