Prins Valiant

Prins Valiant

Þegar ég var á Íslandi um páskana fór ég í heimsókn til ömmu. Þar rakst ég á þessar tvær myndir af foreldrum mínum. Svo virðist sem við öll höfum skartað sömu hárgreiðslunni á ákveðnum tímapunkti lífs okkar.

Þarna er faðir minn ennþá með hár og er vel snyrtur á brúðkaupsdaginn, ég er nokkuð viss um að árið sé 1976 og karlinn með tískuna á tandur hreinu. Faðir minn var hárprúður maður í sína daga og hef ég séð myndir í gömlum myndaalbúmum sem sanna það. Hann hefur víst tekið út sinn hárskammt á yngri árum, því það er eitthvað fátæklegri kollurinn á honum í dag.

Móðir mín skartaði einnig Prins Valiant greiðslunni. Miðað við það hversu gömul ég er í fanginu á henni, þá er þetta þetta á því herrans ári 1991. Þar sem að faðir minn hafði ekki hárvöxtinn í greiðsluna lengur hefur hún augljóslega gefið sig fram og skellt sér í klippingu og með svona líka góðum árangri.

Árið er 2014 og ég gerðist svo djörf að klippa af mér hárið án þess þó að vita að ég væri að feta í fótspor foreldra minna. Ég er sömuleiðis sannfærð um að Prins Valiant stenst tímans tönn. Frá árinu 1976 fram til 2014 höfum við fjölskyldan litið vel út með snyrtan hausinn, þökk sé Prins Valiant.

Kærar kveðjur
Katrín Valiant

Share Post :

More Posts