Reality check vikunnar

Ég datt inn á þessa norsku þætti sem fjalla um nokkur ungmenni sem ferðast til Kambódíu í þeim tilgangi að fræðast um lífið í fataverksmiðjunum þar, þau eru öll þekktir tískubloggarar í Noregi. Þessir þættir komu mér til þess að hugsa.

Ég verð bara að mæla með þessum þáttum. Þó svo að maður viti að fólkið í þessum verksmiðjum hafi það slæmt þá veit maður ekki neitt. Þetta fær mig til að hugsa um allar mínar gerviþarfir. Ég fæ flashback til allra þeirra stunda þegar ég hef vorkennt sjálfri mér að eiga ekki flottasta símann, eiga ekki pening fyrir einhverri flík sem að ég sá í Top Shop, þegar ég leit í spegil og fannst ég ekki vera nógu mjó, þegar ég fór út að borða því ég nennti ekki að elda heima, þegar mér fannst mér ekki eiga neitt til að fara í en samt er fataskápurinn minn troðfullur, þegar ég verð pirruð á því hvað mikið af laununum mínum fer í skatt, þegar ég á ekki eins flott innbú og tískubloggarinn og þessi listi er langt frá því að vera tæmandi.

Það er bara svo auðvelt að týnast í þessum gervi heimi á tímum á Facebook og Instagram. Það eru allir orðnir meistarar í að stilla kaffinu sínu upp, vera bestir í að djamma og meistarar í að slappa af og allir eru umvafnir Omaggio vösum og Ittala á milli þess sem að þeir fara í æsispennandi ferðir um heiminn, komast inn í draumaskólann og hlaupa maraþon á hálftíma. Og um leið og ég sé þessar myndir þá langar mig bara til að vera eins, vera með í fjörinu. Þetta er einhver hjarðarhegðun. Og áður en ég veit af er ég búin að stilla hafragrautnum mínum upp og “óvart” sést glitta í moominbolla á myndinni. Þennan dag fer magn lífshamingju minnar eftir því hversu mörg læk ég fæ, allir halda svo að ég sé hamingjusamasta blómið í Kongens Have þegar ég í rauninni grenjaði ofan í kaffi mitt þennan sama morgun, en ekki séns að ég láti það á veraldarvefinn.

Af og til þegar ég fæ svona “wake up call” fæ ég algert ógeð á sjálfri mér. Í það minnsta er gott að ég sé meðvituð um þennan misskilning á því sem er virkilega mikilvægt í lífinu. Það er allavega byrjun. En það er auðvelt að gleyma. Hér sit ég á kaffihúsi og er búin að kaupa mér kaffibolla fyrir mánaðarlaun starfsmanns í fataverksmiðju í Kambódíu, skrifa þetta á Apple tölvuna mína og kíki reglulega á iPhone símann minn og vona að einhver líki við Instagram myndina sem ég hlóð upp í morgun. Lífshamingja mín í dag veltur svo á því hversu margir lesa þetta blogg.En allavega, kíkiði á þessa þætti. >> http://bit.ly/1BYJ4MP <<Kærar kveðjur

Katrin

Share Post :

More Posts